Annáll 2008 – 2009

(Fyrst birt sem glósa á facebook á gamlársdag 2009)

Þar sem ég hef ekki skrifað fréttir af mér lengi, eða frá sumrinu 2008 nánast, fyrir utan misgáfulega facebook statusa ákvað ég, ekki síst sjálfri mér til glöggvunar, að rita niður hvað á daga mína hefur drifið síðan og gera upp síðustu misserin.

Í ágúst 2008, eftir að ég skilaði af mér BA ritgerðinni minni við Háskólann á Bifröst, fluttum við Sóley s.s. frá Bifröst og hreiðruðum um okkur á stúdentagörðum í Reykjavík, nánar tiltekið á Eggertsgötunni. Sóley byrjaði þriðja bekkinn í Melaskóla, en upp í fjórða bekk ekur skólabíll börnunum í Litla Skerjafirði til og frá skóla. Þar líkaði henni ágætlega en ekki leið sú vika að hún nefndi ekki söknuðinn til Bifrastar og Varmalandsskóla. Sjálf hóf ég meistarnám í Opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands í lok ágúst 2008. Þar sem ég vel mér alltaf nám með sem lengstu nafni lét ég mér ekki nægja að námið héti einungis Opinber stjórnsýsla heldur bætti við fyrir aftan „með sérhæfingu í upplýsingastjórnun og rafrænum samskiptum“.

Við Sóley fórum svo norður á Árshátíð Húnavallaskóla í lok nóvember, þar sem Kata og bekkurinn hennar slógu í gegn með söngleikinn Grease. Frábært hjá krökkunum.
Kata sem sagt bjó hjá pabba sínum og tók tíunda bekkinn þar, en Símon tók sér frí frá námi þetta haust og vann í Olís á Dalvík þar sem hann hafði líka verið að vinna um sumarið.

Krakkarnir voru öll hjá mér jólin 2008 og það var yndislegur tími. Milli jóla og nýárs fórum við til Mæju og fjölskyldu ásamt mömmu og Heiðari. Frábær tími. Allof sjaldan sem við hittumst svona öll. Ég eyddi svo áramótunum líka með Mæjunni minni en krakkarnir fóru norður og voru hjá pabba sínum.

Þann 10. janúar 2009, daginn sem pabbi hefði orðið sextugur, setti Rúna niður fallegan stein á leiðið hans og við systkinin (nema Lilja sem var í Danmörku) og Rúnubörn hittumst í garðinum þar sem strákarnir settu steininn niður af mikilli natni. Fallegur dagur, dásamlegur félagskapur.

Annars fór vorönnin mestmegnis í aðaláhugamálin „stráka og lestur góðra bóka“ eða þannig. Ég kláraði aðra önnina mína í MPA náminu og gerði lítið annað en að sinna námi og afkvæmum.
Vorið 2009 kláraði Kata svo grunnskólann og útskrifaðist frá Húnavallaskóla með prýði. Hún ákvað strax (við fæðingu nánast) að sækja um nám í Verkmenntaskólanum á Akureyri og fékk þar inn, bæði í skóla og á heimavistina.

Í júní fórum við systkinin ásamt mömmu og öllum afkvæmum, nema Símoni mínum, til Danmerkur. Tilefnið var að halda uppá sextugsafmæli ættmóðurinnar sem þó náði þeim aldri ekki fyrr en í september sama ár. Þessi ferð var í einu orði sagt frábær. Við gistum hjá Lilju systur og hennar börnum, fórum til Þýskalands einn dag, annan dag fórum við í Lególand, skruppum í bæinn, Odense, og margt margt fleira.

Kata fékk svo vinnu á Dalvík s.l. sumar, í Frystihúsi KEA (hvað svo sem það heitir í dag). Fyrsti vinnudagurinn hennar var svo 18. júní, árið sem hún varð sextán, en það er nákvæmlega sami dagur og ég hóf störf hjá því sama fyrirtæki sumarið sem ég varð sextán “örfáum árum áður“. S.s. sami dagur, sami aldur, sama fyrirtæki. Tilviljun eða ekki…

Símon hélt tryggð sinni við Olís á Dalvík og bæði fengu þau inni hjá föðurafa og ömmu sinni það í bæ og kann ég þeim miklar þakkir fyrir.
Sóley var hjá mér fyrri part sumars og nýttum við þann tíma vel til útivistar og ferðalaga. Við fórum í Húsafell í útilegu með Eyrúnu, Svönu og fjölskyldum þeirra eina helgi í júní og svo aftur með Eyrúnu og fjölskyldu í Þjórsárdal. Dásamlegur tími og frábær félgasskapur.
Um mánaðarmótin júní- júlí lögðum við Mæja systir svo land undir fót með börnin í aftursætinu og TéTýpuna í eftirdragi og settum stefnuna á Siglufjörð. Þar heimsóttum við Jóstein frænda, Rósu, strákana og öll dýrin þeirra. Og þvílíkar og aðrar eins móttökur! Fyrir utan veðrið sem var algerlega með ólíkindum eru þau hjón höfðingjar heim að sækja.
Við héldum svo sem leiðin lá til Akureyrar því við íþróttafríkin vorum að fara á fótboltamót. Persónulega hefði ég nú heldur kosið að vera á Pollamóti Þórs sem haldið var þá sömu helgi en þar sem Bjarki Aron sæti frændi var að keppa á öðru móti hélt ég mig bara þeim megin og horfði þæg á ungu drengina spila. Við tjölduðum TéTýpunni minni á tjaldstæðinu og þar héldum við Mæja til með Sóleyju Öddu og Agnesi Rún en Bjarki Aron gisti með liðinu sínu í einhverjum skólanum. Þetta var afskaplega skemmtileg reisa og veðrið náttulega með ólíkindum. Sóley Adda varð svo eftir fyrir norðan þar sem hún dvaldi hjá föður sínum næstu 5 vikurnar.

Ég var svo varla komin heim til mín þegar ég stökk af stað í enn eina útileguna, í þetta skiptið á Snæfellsnesið. Við fórum tvær, við Þorgerður, og tjölduðum á Arnarstapa. Gengum þar um náttúruperlur, slökuðum á, átum drukkum og nutum lífins. Svana kom svo í bústaðinn og við eyddum tveimur kvöldum með henni. Það var nú ekki leiðinlegt. Eins keyrðum við um nágrennið og skoðuðum það markverðasta. Eins og t.d. búðina á Hellissandi, sem ég man ekki nafnið á í augnablikinu, en þar fæst ALLT. Síðustu nóttina tjölduðum við svo í Stykkishólmi.
Eftir þetta ævintýri tók ég mér frí frá ferðalögum í örfáa daga.

Þó ekki marga því áður en ég vissi af var ég mætt á Mærudaga á Húsavík, í þetta skiptið með Svönu og Rögga.
Verslunnarmannahelgin var merkileg, en þó aðallega fyrir þær sakir að ég hélt mig í bænum. Mæja systir kom meira að segja með mér í bæinn!
Helgina eftir versló lagði ég svo bensínpedala undir fót í enn eitt skiptið en í þetta skiptið var stefnan sett á Fiskidaginn mikla á Dalvík. Það var heljarinnar reisa og félagskapurinn ekki af verri endanum.
Um miðjan ágúst fórum við Mæja systir og Rúna okkar í Vatnsdalinn og lögðum sjálfan Jörund undir okkur. Eftir göngu á hæsta tind Vatnsdalsfjalls lentum við í þvílíkri grillveislu á Hjallalandi hjá þeim Siggu og Einari þar sem við fengum líka að gista. En þar sem við vorum fullar orku eftir gönguna, sturtuna og grillið, skelltum við okkur eftir þetta allt saman á Kántrýhátíð á Skagaströnd. Engir smá orkuboltar.

En þar með var útstáelsi sumarsins ekki lokið. Við systkinin, Mæja, Heiðar og vinir skelltum okkur í Undirfellsrétt í byrjun september. Þar lögðum við undir okkur heilan herragarð, að Hvammi. Þetta var dásamleg helgi þar sem við hittum fullt af gömlum vinum, brottfluttum og þeim sem ennþá búa í dalnum. Visiteruðum dalinn og komum viða við. Þetta verður klárlega endurtekið að ári.

Í lok ágúst urðu þær breytingar á högum okkar Sóleyjar Öddu að við ákváðum að yfirgefa Reykjavíkina tímabundið og flytja til baka uppá Bifröst. Ætlunin var að vera þar í 9 vikur á meðan ég tæki svokallaðan starfstíma, sem er hluti af náminu mínu en ég var svo heppin að kúrsarnir sem ég átti eftir að taka voru allir kenndir í fjarnámi þannig að þetta gekk allt saman vel upp. Vikurnar níu urðu reyndar að fjórum mánuðum enda erfitt að yfirgefa Norðurárdalinn og það dásamlega fólk sem hreiðrað hefur um sig á Bifröstinni góðu.

S.l. haust fórum við Sóley í ógleymanlega hellaferð sem Sigrún snillingur Herm skipulagði ásamt föður sínum, í Víðgelmi í Hallmundarhrauni. Sú ferð á alltaf eftir að verða okkur ógleymanleg, ótrúlega krefjandi en þvílík fegurð þarna inni!

Núna í desemberlok fluttum við þó aftur „heim“ á Eggertsgötuna. Krakkarnir voru hjá pabba sínum um jólin en stelpurnar eru núna komnar til mín og verða yfir áramótin, eða þangað til Kata þarf að fljúga norður á vit vinnu, skóla og nýrra ævintýra.
Í dag, gamlársdag 2009 á Símon minn 19 ára afmæli.

Þá held ég barasta að þessum annál síðustu 18 mánaða sé lokið, en ég efast ekki um að ég hafi gleymt að minnast margs í þessum “örstutta” pistli sem ég hefði viljað hafa hérna með. Ég giska á að það verði nákvæmlega tvær manneskjur sem klára að lesa þessa langloku allasaman, ég (til að leita að stafsetninga- og innsláttarvillum og einhver einn enn sem hefur ekkert að gera á meðan tíminn teymir okkur í átt að nýju ári.

Ég óska öllum gleðilegs árs og gæfu á nýju ári og vona að ég eigi eftir að hitta ykkur sem flest sem oftast í náinni framtíð. Eins og svo oft áður er ég endalaust þakklát fyrir allt það dásamlega fólk sem almættið hefur ákveðið að leyfa mér að kynnast. Þið eruð öll frábær!

Ástarþakkir fyrir allt á liðnum árum.
Knús að eilífu, Harpa

Frændsystkin

Við mæðgur erum búnar að vera hjá Mæju Pæju síðan í gærkvöldi. Þessi skemmtilega mynd var tekin af börnunum okkar núna áðan þar sem þau voru búin að koma sér þægilega fyrir í rúmi elstu heimasætunar að horfa á mynd í sjónvarpinu.

Hjólastelpur

Við mæðgur fórum í dag og versluðum nýtt hjól fyrir átta ára skvísuna sem átti eftir að fá afmælisgjöfina sína frá því í júlí. Við fórum nebbla í hjólatúr um hverfið í gær og þá kom í ljós, það sem reyndar vitað var, að gamla sjöþúsundkrónahjólið var bilað/ónýtt. Þar sem við erum um það bil að hefja glænýjan lífstíl þá var ekki um neitt annað að ræða en að fjárfesta í almennilegu hjóli handa gellunni.

Á heimleiðinni komum við við hjá Heiðari litla bró og horfðum á Dagvaktina frá því síðustu helgi og fórum svo heim og þrifum sameignina. Þegar því var lokið fórum við í fínan hjólatúr um hverfið. Magnað alveg hreint.

Karl

Við mæðgur erum komnar með Karl á heimilið.

Ekki leiðinlegt. Nema honum fylgir sóðaskapur.

Við kjósum að kalla það fórnarkostnað.

Önnur okkar er mun glaðari með Kalla en hin. Þið megið geta hvor…

BA í HHS

Í dag skrapp ég á Bifröst ásamt mömmu og Mæju sys.

Núna er ég með BA gráðu í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði.

Þokkalega sátt. Skál í boðinu!

Maraþon

Við mæðgur vorum að koma úr 3. km. “maraþoni” Glitnis. Allar bættum við okkur stórkostlega, enda aldrei tekið þátt áður.

Þakklát

Hef ég nefnt það hvað ég er óendanlega þakklát?

Þakklát fyrir að eiga dásamleg og heilbrigð börn.

Þakklát fyrir að eiga dásamlega fjölskyldu.

Þakklát fyrir að eiga yndislega vini.

Þakklát fyrir hvað röð “tilviljana” (ef þær yfirhöfuð eru til) gera líf mitt auðugra.

Þakklát fyrir allt það góða fólk sem á vegi mínum hefur verið í gegnum lífsleiðina.

Þakklát fyrir að hafa kynnst slæmu hliðum fólks sem stóð mér nærri. Það hefur ekki síst kennt mér sitthvað. Margur verður af aurum api og þannig apar eru aumkunnarverðir.

Þakklát fyrir að það fólk sem fyrir mér hefur átt að liggja að kynnast betur gafst ekki upp á mér þó svo ég sé seintekin.

Þakklát fyrir allt sem lífið hefur gefið mér, sem er ekkert smáræði!

Annáll sumarsins

Það hefur ekki farið mikið fyrir fréttum af mér í sumar, enda ég búin að vera verulega bissí að njóta lífsins í dásamlegu veðri. Í stuttu máli er sumarið búið að vera svona:

Stelpurnar voru hjá mér í 5 vikur og fóru eftir það norður og voru þar í aðrar 5 vikur. Í júní byrjaði ég að skrifa BA ritgerðina mína sem ég svo skilaði í gær. Er búin að hafa góðan tíma til að skrifa hana enda var það alltaf planið. Skrifa og njóta sumarsins. Tók mér frí frá skrifum flestar helgar. Stóra stelpan var í vinnu hérna við skólann í júní og líkaði mjög vel og sérlega vel eftir að hún fékk útborgað. Síðustu vikuna sem þær voru hjá mér fyrir sumarfrí hjá þeim fórum við á landsmót hestamanna á Hellu.

Það er nú varla hægt að segja að tjaldvagninn hafi verið neitt sérstaklega ofnýttur í sumar en auk viku útilegu á Hellu fór ég með Ellu og Davíð á Mærudaga á Húsavík. Það var verulega skemmtileg ferðalag svo ekki sé sterkar kveðið að orði og nauðsynlegur partur af batteríhleðslunni fyrir lokatörnina í ritgerðarskrifunum.

Síðustu tvær vikur hef ég svo setið nótt og dag og skrifað. Hugsa að meðal svefntími á sólarhring hafi ekki farið uppfyrir 5 tíma. Oft 2-3 tímar. Þrátt fyrir svefnleysi, sem ég efast ekki um að ég komi til með að vinna upp fljótlega, voru þessar tvær síðustu vikur sérstaklega skemmtilegar og að ég nú ekki tali um lærdómsríkar.

Núna þegar ég hef skilað af mér lokaverkefninu í BA náminu er komið að breytingum hjá okkur litlu fjölskyldunni. Við erum að flytja frá Bifröst eftir hálfan mánuð eftir að hafa búið hér og lifað í bómulinni okkar í tæp tvö ár. Því fylgir mikill tregi og söknuður því hér hefur okkur liðið alveg einstaklega vel. Við erum komin með íbúð á stúdentagörðum í Rvk sem við fáum afhenta eftir sléttar tvær vikur. Sóley skvísa er að fara í 3. bekk og kemur til með að ganga í Melaskóla. Hún hlakkar heilmikið til að takast á við nýtt umhverfi og nýjar aðstæður, bjarsýn og brosandi eins og alltaf. Eins hyggst einkasonurinn flytja til okkar í bæinn og leitar nú að málarameistara sem vantar hörkuduglegan og samviskusaman strák á samning. Stóra stelpan er að fara að klára grunnskólann fyrir norðan í vetur og sjálf er ég að hefja MPA nám í HÍ í haust.

Það eru sem sé góðir tímar framundan og engin ástæða til annars en hlakka til framtíðarinnar.

Kannski maður fari að nota þetta pláss til að tjá sig fljótlega.

Alveg

…spurning um að byrja að skrifa á þessa síðu aftur?

Tók út allar gömlu færslunar sem ég hafði skrifað hér fyrir rúmum tveimur árum. Langar frekar að horfa fram á veginn. Held það sé miklu skemmtilegra en að velta sér uppúr fortíð og fávitum.

Create a free website or blog at WordPress.com.